Um MurMur

 

MurMur productions sérhæfir sig í framleiðslu menningarverkefna. Við vinnum með listafólki og hópum innan sjálfstæðu listsenunnar og innan allra listgreina að stærri og smærri verkefnum. Við teljum að faglegt utanumhald í framleiðsluferli skili af sér betri verkefnum, betri nýtingu á fjármagni, auknum sýnileika og frekari möguleikum á framhaldslífi verkefna.

 

 

Teymið

  • Kara Hergils

    Kara útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2011 af samtímadansbraut sem dansari og danshöfundur. Kara stofnaði Menningarfélagið Trigger Warning árið 2016 þar sem hún hefur skapað og framleitt sín eigin verk. Hún pabbi var frumsýnt í Borgarleikhúsinu 2017. Velkomin Heim var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2019 og svo frumflutt í Útvarpsleikhúsinu árið 2020. BRUM var svo frumsýnt árið 2020 og tekið upp aftur haustið 2021.

    Hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri og framleiðandi hjá Reykjavík Dance Festival síðan 2015. Kara tók formlega við sem framleiðandi fyrir Marble Crowd árið 2021 eftir gott samstarf við uppsetningu á verkinu eyður sem var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 2020.

    Kara sinnti störfum verkefnastjóra og kynningarfulltrúa hjá Listahátíð í Reykjavík frá 2020 - 2021. Hún hefur einnig sinnt framleiðslu fyrir sjálfstætt starfandi hópa, meðal annars leikhópinn PólíS og Miðnætti.

  • Davíð Freyr Þórunnarson

    Davíð er menntaður leikari með meistaragráðu í menningarstjórnun. Hann er einn af stofnmeðlimum sviðslistahópsins 16 elskendur sem hefur teygt á mörkum hefðbundinna leiksýninga og krufið mál líðandi stundar allt frá árinu 2008. Hann gegnir nú stöðu framkvæmdastjóra hópsins. Frá árinu 2015 hefur Davíð unnið sem sjálfstætt starfandi framkvæmdastjóri og framleiðandi hjá mörgum af helstu sviðslistahópum landsins. Þar hefur hann öðlast mikla reynslu af upplýsingamiðlun, áætlanagerð, textagerð og hugmyndavinnu, verkefnastýringu og markaðssetningu sviðslistaverka og menningarviðburða hérlendis sem á erlendri grund.

    Davíð er framkvæmdastjóri listahátíðarinnar List án landamæra en hefur að auki gegnt stöðu verkefnastjóra hjá alþjóðlegu listahátíðinni Cycle Music and Art festival og sem kynningarfulltrúi samtímatónlistarhátíðarinnar Myrkir músíkdagar. Davíð situr í stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna - bandalagi atvinnuleikhópa og gegnir þar stöðu ritara.

  • Ragnheiður Maísól Sturludóttir

    Ragnheiður Maísól lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2013 og stundar nú meistaranám í hagnýtri þjóðfræði við Háskóla Íslands.

    Ragnheiður Maísól hefur unnið við listræna stjórnun, framleiðslu, framkvæmdastjórn og markaðssetningu fjölbreyttra menningarviðburða síðasta áratug. Meðal fyrri verka má nefna listræna stjórnun og framkvæmdastjórn listahátíðarinnar List án landamæra, framleiðsla á sviðsverkinu Club Romantica, markaðssetning á myndlistarhátíðinni Sequences, framkvæmdastjóri samtímatónlistarhátíðarinnar Myrkir músíkdagar, verkefnastjóri hjá Sirkus Íslands og framleiðandi leikverksins The Last Kvöldmáltíð. Ragnheiður Maísól er einnig ein af stofnendum myndlistarhópsins IYFAC og hefur, samhliða menningarframleiðslu, unnið að eigin listsköpun.

 

 

Hvað gerum við?

MurMur sérhæfir sig í öllum hliðum framleiðsluferlis; allt frá hugmyndavinnu, yfir í fjármögnun, framkvæmd, eftirvinnslu og framhaldslíf. Einnig tökum við að okkur einstaka þætti verkefna. Við sjáum um styrktarumsóknir, fjármögnun og gerð fjárhagsáætlana. Við aðstoðum við að finna samstarfsaðila og sjáum um samtal við stofnanir, bókhald og utanumhald verkefna. Við tökum að okkur markaðssetningu og almannatengsl auk verkefnastjórn einstakra þátta verkefnis. Við nennum að skrifa skýrslurnar, hringja leiðinlegu símtölin og reka á eftir hlutunum. Við mætum þér þar sem þörfin er. Við erum, í stuttu máli sagt, að öllu leyti laus við framkvæmdakvíða og bara göngum í hlutina og græjum málin.

Við aðstoðum verkefni við að öðlast framhaldslíf, bæði hérlendis og erlendis. Við viljum efla tengsl við landsbyggðina svo fleiri fái að njóta verkefna og auka samstarf við listamenn um land allt. Við teljum að það felist mikil tækifæri í útflutningi á íslenskri list og viljum byggja upp erlent samstarf með því að vera í samstarfi við erlendar menningarstofnanir og hátíðir. 

Saga MurMur

MurMur var stofnað árið 2021 af Davíð Frey Þórunnarsyni, Köru Hergils og Ragnheiði Maísól Sturludóttur. Við höfum öll unnið sjálfstætt að menningarframleiðslu síðustu ár og búum yfir dýrmætri reynslu og færni í framleiðslu menningarviðburða. Meðal fyrri verkefna má nefna List án landamæra, Club Romantica, Myrka músíkdaga, Reykjavík Dance Festival, Listahátíð í Reykjavík, eyður, Haukur og Lilja - Opnun, Geim mér ei og The Last Kvöldmáltíð. 

MurMur var stofnað til að mæta þörf á stuðningi við sjálfstæða listamenn og hópa. Við veitum faglega þjónustu við framleiðslu menningarverkefna til þess að listrænir stjórnendur og listamenn geti einbeitt sér að sköpun verkefna.