Næstu sýningar:
19. mars, laugardagur - kl. 13:00 & kl. 15:30
27. mars, sunnudagur - kl. 13:00
Manndýr er þátttökusýning um hlutverk mannsins út frá sjónarhorni barna. Í sýningunni er samband barna og fullorðinna skoðað og spurningunni um hlutverk þeirra innan heimsins velt upp. Af hverju er maðurinn til? Af hverju er barn til? Hvað gera þau og til hvers? Hljóðmynd verksins er unnin upp úr vangaveltum barna út frá þessum spurningum.
Manndýr er fyrir börn frá 4 ára aldri og uppúr. Á sýningunni gefst börnum tækifæri til þess að leika með og þreifa á ýmsum munum, t.d. þurrum baunum, steinum, smápeningum, vír, efnisböndum, óþæfðri ull og ullarkambi.
Sýningin er á mörkum þess að vera leikverk og innsetning. Í rýminu er manndýr í tilvistarkreppu að reyna að púsla sögu sinni saman á ný og skilja tilgang sinn í heiminum. Á milli leikrænna atriða eru börn jafnt sem fullorðnir hvattir til að taka þátt og leika saman.
Gestum er boðið inn í heim þar sem hægt er að upplifa með eyrum, augum og höndum, sjálf eða í samvinnu. Við gefum okkur tíma til að spyrja spurninga sem fá svör eru við og dvelja í heimi þar sem börn segja alla söguna.
Aude Busson er sviðslistakona sem hefur áhuga á að skapa sýningar og viðburði sem byggja á þátttöku áhorfenda og þá sérstaklega með samvinnu barna og fullorðinna. Síðasta verk hennar „Ég elska Reykjavík“ var fjölskyldugöngusýning og var tilnefnd til Grímuverðlaunanna.
Sigríður Sunna Reynisdóttir er sviðshöfundur og hönnuður. Hún hefur unnið leikmyndir, búninga og leikbrúður fyrir fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Tjarnarbíó og víðar síðustu ár, auk þess að framleiða eigin sviðsverk.
Björn Kristjánsson eða Borko er tónlistarmaður og grunnskólakennari. Hann hefur unnið bæði í leikhúsi og tónlistarheiminum í tæp 20 ár og leitt fjölda tónlistarverkefna með börnum.
Aðgengi á sýningu:
Ekki er setið í númeruðum sætum heldur á púðum á sviðinu. Hægt er að setja stóla sé þess óskað. Tjarnarbíó er með ágætt hjólastólaaðgengi. Engir þröskuldar eru inn í sal. Í húsinu er klósett fyrir hreyfihamlað fólk en þó er aðgengi þar inn takmarkað við stærri hjólastóla. Næsta p-merkta stæði við Tjarnarbíó er í Tjarnargötu og í bílastæðahúsi við Ráðhúsið.